Gudrita Lape – solidus liquidus 24.9. – 13.10. 2022

Laugardaginn 24. september n.k. kl. 16 verður opnuð einkasýning Gudritu Lape í Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði. Sýningin ber heitið ,,solidus liquidus‘ og stendur til fimmtudagsins 13. október. Listakonan opnar sýninguna með gjörningi og boðið verður upp á léttar veitingar.

Áherslur sýningarinnar eru meðal annars: að kynna betur notkun matar og lífefna í myndlist og að hefja umræðu um matarsóun og aktívisma því tengdan í gegnum myndlist. Verkefnið er framhald rannsóknar hennar á forgengilegum verkum þar sem náttúruleg litarefni, matarlist og lífefni eru í forgrunni.

Gudrita útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2012 og lauk nýlega námi í textíl og tækni við Fabricademy – Fab Lab textíl akademíu í Barselóna árið 2021 þar sem meðal annars kóðun, snjalltextíl og hönnun á náttúrulegum “efnum” (biochromes, biocomposites, biomaterials, grown materials) voru kennd. Íslenska-litháíska listakonan býr bæði á Íslandi og á Spáni síðan 2020 og sýningin mun sýna brot af þessum heimi.

Matarleifar, íslensk og erlend flóra munu sameinast og umbreytast í gegnum ræktun, gerjun og þurrkun í þrívíða innsetningu gagnvirkra sveigjanlegra og hálf sveigjanlegra efna. Verkefnið gefur Vestfirðingum sem og öðrum gestum tækifæri til að líta inn í þennan lifandi heim sem er enn ókunnugur á Íslandi.

Starfsemi Úthverfu nýtur styrkja fyrir einstök verkefni úr Myndlistarsjóði, Uppbyggingarsjóði Vestjfarða og frá Ísafjarðarbæ.

DEILA