Í ályktun Fjórðungsþings Vestfirðinga, sem haldið var á Patreksfirði um helgina, segir að mikilvægt sé að styrkja samkeppnisstöðu Vestfjarða. Sérstaklega er bent á að þurfi bæta samgöngur, fjarskipti og orkumál á svæðinu.
Fjórðungsþingið bendir á að markmið Byggðaáætlunar 2022-2036 eru að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Þar er jafnframt tekið fram að sérstök áhersla skuli lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf.
Í ályktuninni segir að afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sé hið lakasta á landinu vegna ófullnægjandi flutningkerfis og lítillar raforkuframleiðslu á svæðinu og að ótrygg raforka standi allri uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum. Fjórðungsþingið vill tryggja eftirfylgni skýrslu starfshóps umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra
sem kom út í apríl sl. Í skýrslunni er sett fram kostnaðarmat og tímasett áætlun um framkvæmd verkefna allt til ársins 2030 sem tryggja eiga samkeppnishæft afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum.
Þá segir að styrkja þurfi fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna svo þau geti sinnt innviðauppbyggingu og þannig styrkt samkeppnisstöðu svæðisins . Vill Fjórðungsþingið að fiskeldisgjald verði beinn tekjustofn sveitarfélaga en það rennur í dag til ríkisins. Gjaldið er vaxandi tekjustofn með auknu fiskeldi og stærstur hluti þess er greiddur af fiskeldisfyrirtækjum á Vestfjörðum.
Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir að fjárhagsstaða sveitarfélaga og orkumálin eru stærstu málin.