Fisherman: Neytendastofa viðurkennir ekki ASC vottun

Fyrir nokkrum dögum var tilkynnt að eldissvæði Arnarlax við Foss í Arnarfirði hafi hlotið ASC vottun.

Neytendastofa hefur bannað Fisherman að nota orðin vistvæn, umhverfisvæn og sjálfbær í kynningarefni um framleiðslu félagsins. Fisherman kaupir eldislax af Arnarlax hf og gerir úr laxinum vörur í neytendaumbúðum. Neytendastofa sendi 1. mars bréf til Fisherman og þar kom fram að fullyrðingarnar þörfnuðust nánari skýringa og sannnana.

Í svarbréfi Fisherman kemur fram að fyrirtækið hafi fengið bæði MSC og ASC vottun og einfaldast væri að fjarlægja orðin sem Neytendastofa gerir athugasemd við.

Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman segir að þessi orð hafi verið fjarlægð af heimasíðu fyrirtækisins en merkingar á umbúðum séu óbreyttar. Þar komi skýrt fram að um sé að ræða vöru í sjóeldi. ASC vottunin sé alþjóðleg og hafi mikið gildi en því miður taki Neytendastofa hana ekki gilda og vilji að fyrirtækin hafi vottunina norræni svanurinn. Þá hafi Arnarlax einnig ASC vottun þannig að bæði eldisfiskurinn og afurðir Fisherman eru alþjóðlega vottuð skv ASC.

Elías hafði ekki heyrt af úrskurði Neytendastofu þegar Bæjarins besta hafði samband við hann seint í gær. Hann sagðist ekki hafa heyrt frá Neytendastofu síðan í mars og hélt að málinu væri lokið.

Í kynningu á ASC vottun segir Aquaculture Stewardship Council að vottunin sé leiðandi í heiminum fyrir eldisfisk í sjó og að vottuð framleiðsla sé ábyrg umhverfislega og þjóðfélagslega.

Í janúar 2019 fengu bæði Arnarlax og Arctic Sea Farm ASC vottun fyrir framleiðslu sína. Í tilkynningu á síðu Arctic Sea Farm sagði þá um vottunina að „Fyrirtæki sem standast ASC vottun skuldbinda sig að lágmarka áhrif á umhverfið á ýmsa vegu. Taka þarf tillit til villta laxfiskastofna, fugla, sjávarspendýra og annara lífvera sem búa í námunda við eldissvæðin svo eitthvað sé nefnt.“

Alinn á sjálfbæran hátt

„Það er ánægjulegt að búið sé að taka út eldissvæði Arnarlax við Haganes og Steinanes og að fiskur af þessum eldissvæðum sé vottaður. Núna getur Arnarlax boðið viðskiptavinum upp á lax sem er alin á sjálfbæran og skynsamlegan hátt“ segir Roger Benz, gæðastjóri Bio Inspecta, svissnesks fyrirtækis sem sá um ASC úttektina.

Þá segir einnig um það sem felist í ASC vottun: „ASC vottun er ein strangasta umhverfisvottunin þegar kemur að fiskeldi í heiminum. Að staðlinum komu margir hagsmunaaðilar. Fiskeldisfyrirtæki, söluaðilar, matvælaframleiðendur, vísindamenn, opinberar stofnanir en staðalinn byggir á hugmyndafræði frá World Wildlife Fund. Til að fá ASC vottun þurfa fyrirtæki að uppfylla strangar kröfur er lúta að umhverfi, vinnulöggjöf og samfélagi.“ Meðal annars segir um fóður að lágmarka skuli notkun á fiski úr villtum stofnum og þeir komi úr sjálfbærum stofnum ásamt fullum rekjanleika hráefnis.

DEILA