Þessir leggir eru afskaplega góðir, ég geri þá stundum tilbúna kvöldið áður en ég ætla að elda þá og það er svo sannarlega ekki síðra. Eins og allt er um að gera að prófa sig áfram og skipta út hráefnum eða bæta við, allt eftir smekk. Þannig verða yfirleitt bestu uppskriftirnar til.
Hráefni:
- 2 msk ólívuolía
- 1 msk sesamolía
- 1/2 dl sojasósa
- 2 msk Worcestershire sósa
- 2 msk sítrónusafi
- 5 msk hunang eða hlynsýróp
- 6 hvítlauksgeirar rifnir niður
- 3 cm engifer bútur, rifinn niður
- ½ tsk svartur pipar
- 1 tsk sjávarsalt
- 1/2 tsk chilliflögur
- 12 kjúklingaleggir
Aðferð:
- Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið vel
- Setjið kjúklingaleggina í stóra skál og hellið marineringunni saman við og blandið vel saman. Setjið plastfilmu yfir skálina og þetta fer næst inn í kæli í nokkrar klukkustundir.
- Hitið ofninn í 180 gráður. Raðið kjúklingaleggjunum í eldfast mót og bakið þá í 45-50 mín eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og hafa tekið á sig fallega gylltan lit. Berið fram strax.
Mér finnst best að bera leggina fram með hrísgrjónum og góðu fersku salati.
Verði ykkur að góðu!