Jass: útgáfutónleikar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á fimmtudaginn

Áður en tónskáldið og jazz píanóleikarinn Kristján Martinsson treður upp á Reykjavík Jazz Festival mun hann halda útgáfutónleika í Edinborgarhúsinu fimmtudagskvöldið 4. ágúst kl. 20:00.

Kristján mun leika lög af glænýrri sólóplötu sinni „Stökk“ í bland við þekkta jazz standarda, svo tónleikagestir mega búast við fjölbreyttri upplifun, þar sem einnig þykir líklegt að leynigestur stigi á svið.

Kristján Martinsson (f. 1986) er íslenskur tónlistarmaðu með aðsetur í Amsterdam og eitt af hans aðalsmerkjum er færni hans til að leika undursamlega á ótal hljóðfæri.

Með bandinu K Tríó hlaut Kristján alþjóðlega viðurkenningu sem tónskáld og jazz píanóleikari og árið 2008 fékk K Tríó verðlaunin „Young Nordic Jazz Commets“ þar sem hljómplatan Meatball Evening (2013) vann þrenn íslensk tónlistarverðlaun. Eftir að hafa lokið meistaranámi við Conservatorium van Amsterdam (2014) hefur Kristján spilað víða um heim og er nú á leiðinni vestur á Ísafjörð.

Píanó og þverflauta eru í forgrunni nýju verkanna ásamt melankólískum breiðtjaldshljóðum og íslenskum náttúruhljóðum. Auk jazzins leikur hann sér að melódískum klassískum, indie-djass, nýrómantískum og mjúkum rafrænum stílum. Jazz standarnir sem leiknir verða eru fornfrægir sem allir unnendur jazztónlistar ættu að þekkja og hafa yndi af. 

Miðaverð er 3.000 kr. og er salan við hurð.

DEILA