Flateyri: Fjölmenni við opnun sýningar Katrínar Bjarkar

Fjölmenni var við opnun myndlistarsýningar Katrínar Bjarkar Guðjónsdóttur á laugardaginn. Sýningin er í Krummakoti, vinnustofu listakonunnar Jean Larson  á Flateyri.

Katrín Björk greindi frá sýningaropnuninni á bloggsíðu sinni og segist hafa fundið fyrir smá kvíða, því hún geti aldrei alveg treyst á það hvernig dagsformið verður hverju sinni og bætir svo við:

„Allt gekk framar okkar björtustu vonum þennan dag. Þegar við mamma komum til Flateyrar tóku Jean og Alan maðurinn hennar á móti okkur við Krummakot. Jean var búin að gera vinnustofuna sína svo fallega í tilefni dagsins og ég sá strax hvað myndirnar mínar nutu sín vel á veggjunum. Það var eitthvað svo falleg og hlý birta á verkstæðinu sem Jean var eiginlega búin að breyta í lítinn sýningarsal.

Mér brá við að sjá hvað það voru margir gestir mættir á sýninguna. Mér fannst æðislegt að hitta allt þetta fólk og finna stemninguna á staðnum og alla jákvæðu orkuna. Ég hitti marga vini og kynntist líka nýju fólki sem var áhugasamt um myndirnar mínar. Það var svo gaman að sjá hvað margir stöldruðu lengi við og spjölluðu fyrir utan Krummakot í góða veðrinu sem við fengum þennan dag.“

Sýningin er opin til sunnudagsins 14. ágúst.

Myndir af síðu Katrínar Bjarkar.

DEILA