Laugardaginn 27. ágúst
Fararstjórn: Sighvatur Jón Þórarinsson frá Höfða í Dýrafirði.
Brottför: Kl. 8 á einkabílum frá Bónus á Ísafirði og kl. 9 frá íþróttamiðstöðinni á Þingeyri.
Vegalengd 6 -7 km, göngutími um 4 – 5 klst.
Kaldbakur er 998 m hár en reikna má með að hækkun á gönguleiðinni sjálfri verði um 600 m.
Kaldbakur, þetta glæsilega fjall á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar sem jafnframt er hæsta fjall Vestfjarða, er 998 metra hátt. Það er reyndar ekki eina fjallið sem heitir þessu nafni þar sem að þau er einnig að finna í austanverðum Eyjafirði (1.173 m), í Vestur – Skaftafellssýslu (732 m) og norðan við Kaldbaksvík á Ströndum.
Fjallið líkist einna helst bát á hvolfi úr fjarlægð og er tignarlegt á að líta, en rétt hjá fjallinu er hin útkulnaða Tjaldaneseldstöð. Kaldbakur trónir efstur fjalla eins og kóróna á hinum svokölluðu Vestfirsku Ölpum. Efst á fjallinu er tveggja metra varða sem göngumenn geta klifið til að ná 1.000 metra hæð.
Kaldbakur er flatur eins og mörg vestfirsk fjöll, en hlíðarnar snarbrattar og sundurskornar. Á toppnum er í boði mjög mikið útsýni yfir stóran hluta af Vestfjörðum og en sérstaklega þó yfir Ketildali við sunnanverðan Arnarfjörð og norður í Dýrafjörð.
Það er hægt að hefja gönguna Arnarfjarðarmegin og ganga upp hinn fagra Fossdal sem er bæði fallegur og vel gróinn. Þessi leið varð hins vegar ekki fyrir valinu í þetta sinn. Ferðin byrjar Dýrafjarðarmegin og verður ekið eftir jeppavegi í Kirkjubólsdal upp í Kvennaskarð sem skilur að Dýrafjörð og Arnarfjörð. Í skarðinu er bíllinn skilinn eftir og tekur gangan þá upp og niður ekki nema 4 – 5 klst þar sem að hún í raun byrjar í um 400 m. hæð þegar þessi leið er valin. Fararstjórinn, Dýrfirðingurinn Sighvatur Jón Þórarinsson, hefur oft áður stýrt göngum á vegum félagsins og þekkir svæðið vel. Þátttakendur mega svo alls ekki gleyma að skrifa í gestabókina sem staðsett er við vörðuna á toppi fjallsins.
Ferðafélagið hvetur sem flesta til að taka fram skóna og taka þátt í gönguferðinni. Það er alltaf líf og fjör í gönguferðunum með skemmtilegum ferðafélögum. Þátttakendum er einnig ríkulega umbunað með góðri og hressandi hreyfingu og þegar upp á toppinn er komið með gríðarlegu útsýni í allar áttir. Sannkölluð veisla fyrir augað! Er hægt að biðja um meira?