Útflutningsverðmæti eldisafurða er komið í tæpa 23 milljarða króna á fyrstu 6 mánuðum ársins.
Það hefur aldrei verið meira á fyrri helmingi árs. Í krónum talið er aukningin um 21% frá fyrra ári. Vegna styrkingar á gengi krónunnar er aukningin í erlendri mynt nokkuð meiri, rúmlega 26%.
Þetta má lesa úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í júní sem birtar voru í fyrri viku. Þar sem þetta eru bráðabirgðatölur liggur sundurliðun á útflutningsverðmæti einstakra afurða á fyrstu sex mánuðum ársins ekki fyrir.
Vafalaust má rekja aukninguna á fyrri árshelmingi til laxeldis líkt og mánuðina á undan.
Útflutningsverðmæti eldislax var orðið um helmingi meira á föstu gengi á fyrstu 5 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma dróst útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, saman um þriðjung.
Hlutdeild lax var komið í 86% af útflutningsverðmæti eldisafurða í heild samanborið við 76% á sama tímabili í fyrra. Aukningu á útflutningsverðmæti eldislax má helst rekja til verðhækkana á afurðum og aukningar á framleiðslu. Um 16% meira magn var flutt út á fyrstu 5 mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra.
Á sama tíma fékkst að jafnaði um þriðjungi hærra verð, mælt í erlendri mynt, fyrir hvert útflutt kíló.