Uppskrift vikunnar – Sumarsúpa

Þessi súpa er afskaplega fersk og er þess vegna alltaf kölluð sumarsúpan í minni fjölskyldu. Eins og með nánast allar súpur er hún alls ekki síðri upphituð því um að gera að gera nóg af henni.

Hráefni:

2 laukar
4 hvítlauksrif
1 msk. garam masala
1 msk. Kúmen
1 msk. Paprikuduft
2 dósir niðursoðnir tómatar, skornir
Örlítið af kanil eða setja kanilstöng út í
1 teningur grænmetiskraftur (eða eftir smekk)
1 dós kókosmjólk (má sleppa ef vill)
Grænmeti eftir smekk, gott að taka það sem er til í ísskápnum en venjulega hef ég paprikur í öllum litum, sætar kartöflur eða grasker og 4 lúkur af spínati
Engifer (eftir smekk)

Aðferð:

Skerið hvítlauksrifin smátt og laukinn og gljáið í smá stund í olíu á pönnunni. Þegar laukurinn fer að mýkjast þá er tómötunum bætt út í og dass af kanil eða kanilstöng ásamt grænmetiskrafti. Setjið kryddið út í og allt í lagi að bæta smá við. Hellið síðan kókosmjólkinni út í. Stundum set ég 1 bolla af linsubaunum út í súpuna en þá er gott að hafa lagt þær í bleyti kvöldinu áður. Grænmetið set ég ekki út í súpuna fyrr en hún er tilbúin og læt það liggja í súpunni í 5 mínútur. Ekki ofsjóða það.

Þá er gott að bæta við engifer ef vill og gaman að prófa sig áfram með það.

Til að toppa sumarsúpuna raspa ég appelsínubörk út á súpuna og ber hana síðan fram.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA