Minning: Björn Birkisson

Björn Birkisson,

f. 6. júlí 1956 – d. 18. júlí 2022.

Hinn 1. ágúst 1937 vígði herra Jón Helgason, biskup Íslands, nýbyggða kirkju á Suðureyri við Súgandafjörð.  Síra Jóhannes Pálmason  tók þar  við prestsskap fimm árum síðar.  Síra Jóhannes, sem las hljóð af blaði og kunni að spila á orgel, hóf þá þegar að æfa kirkjukórinn, auk þess sem hann stjórnaði karlakór.  Öðlingurinn Sturla Jónsson hreppstjóri á Suðureyri var 43ja ára, þegar hann keypti sér orgelharmoníum og tók að læra á það til þess að geta leikið undir sálmasönginn við guðsþjónustur og aðrar athafnir í kirkjunni.

               Mannlíf í Súgandafirði hefur löngum verið fagurt.  Súgfirðingar hafa ætíð verið kirkjuræknir og unnað kirkjum sínum, bæði úti á Stað í Staðardal og á Suðureyri.  Guð blessi ávallt byggðina við fjörðinn.

               Mörgum árum eftir að síra Jóhannes lét af embætti, var stofnaður Samkór Vestur-Ísfirðinga með þátttöku Súgfirðinga, Önfirðinga og Dýrfirðinga.  Þáverandi prestsfrú í Holti stjórnaði kórnum og hélt hann söngskemmtanir við góðar undirtektir.  Potpourri (syrpa) úr óperettum Franz Lehár var meðal þess, sem flutt var.   Ungu hjónin í Botni, þau Helga Kristjánsdóttir frá Bakkárholti í Ölfusi og Björn Birkisson búfræðings og bónda Friðbertssonar í Botni og Guðrúnar Fannýjar Björnsdóttur, voru dyggir og raunar ómissandi félagar í þessari söngsveit.  Er gott að minnast indælla kynna við hvorutveggju hjónin, þau Birki og Gunnýju og Björn og Helgu.

               Sveitungi Björns, Björgvin Þórðarson rafvirkjameistari og tenórsöngvari frá Suðureyri, sonur hjónanna Þórðar Maríassonar og Margrétar Sveinbjarnardóttur, sem bæði sungu í Kirkjukór Suðureyrar í fjöldamörg ár, hafði á hendi hlutverk einsöngvarans í laginu góðkunna úr óperettunni Brosandi land eftir Lehár, “Dein ist mein ganzes Herz!”  Þetta  söng Björgvin af mikilli list, enda einhver allra fremsti tenór, sem Íslendingar hafa eignast; röddin unaðslega fögur, bæði björt, mjúk og þróttmikil.  Góðskáldið á Kirkjubóli í Bjarnardal, Guðmundur Ingi Kristjánsson, þýddi texta þeirra Ludwig Herzer og Fritz Löhner-Beda á íslensku, svolátandi:  

„Hjarta mitt hyllir þig

og hvergi má ég vera´án þín.

Svo bliknar jarðarblóm

á blöð þess ef ei sólin skín.

Um þig er lífs míns ljóð, sem leggur ástin í þína slóð.

seg mér enn: Hvað sýnist þér um mig.

Ó, segðu hátt og skýrt:  Ég elska þig.”

Það er mikill sjónarsviptir að Birni Birkissyni, hinum dugandi bónda  í  Botni í Súgandafirði.  Þar var búskapur allur með óvenjulegum myndarbrag.  Nutu og margir vegfarendur aðstoðar þeirra feðga, þeir er leið áttu yfir Botnsheiði, þegar snjóþungt var.  Allt er það geymt og ekki gleymt.

Með mikilli hjartans þökk og í bæn um blessun Guðs kveðjum við kæran og eftirminnilegan söngfélaga og samferðarmann, Björn Birkisson.  Hyggjum við, að hann hefði á sama hátt viljað kveðja og þakka ástríki, umhyggju og hlýju.  Megi birta hins himneska ljóss lýsa ástvinum hans alla ókomna daga.  Við biðjum Guð um frið yfir legstað hans, og um blessun yfir endurfundi hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi.   Við felum Björn Birkisson orði Guðs náðar.  Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars, í Jesú nafni.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA