Miðnætursól: glæsilegir tónleikar í Bolungavík

Kyiv Soloists komu fram í íþróttahúsinu í Bolungavík í gærkvöldi og héldu stórglæsilega tónleika. Á þriðja hundrað manns lögðu leið sína í íþróttahúsið á tónleikana. Kyiv Sololists komu til landsins á vegum Tónlistarhátíðarinnar Miðnætursólar sem Tónlistarskóli Bolungarvíkur stendur fyrir ásamt Bolungarvíkurkaupstað. Aðrir tónleikar verða þriðjudaginn 5. júlí í Hörpu í Reykjavík.

Í ársbyrjun 2022 fór hljómsveitin í tónleikaferð um Evrópu og á Ítalíu fékk hún fréttir af innrás rússneskra hermanna í Úkraínu. Allt breyttist og það var ekki lengur mögulegt að snúa aftur heim til Úkraínu. Í samvinnu við leiðandi tónleikasamtök í Evrópu var tónleikaferð Kyiv Soloists framlengd um óákveðinn tíma.

„Við spilum fyrir friði í Úkraníu“, segja þau. Sérstaklega var áhrifamikil ræða einnar úr hljómsveitinni sem lýsti áhrifum innrásar Rússa í Úkraínu á hana og landsmenn hennar.

Tónleikarnir voru styrktartónleikar fyrir Úkraínu. Frjáls framlög má greiða á reikning 0174-05-401129, kennitölu 650269-2339.

Með hljómsveitinni spiluðu feðgarnir og heimamennirnir Selvadore Rähni á klarinett og Oliver Rähni, píanó og fara þar tvímælalaust miklir tónlistarmenn. Stjórnandi var Erki Pehk. Leikin voru m.a. verk eftir Carl Maria von Weber, klarinettukonsert nr 1 í f moll og píanókonsert nr 1 í C dúr.

Veg og vanda að skipulagningu tónlistarhátíðarinnar Miðnætursól hafði Selvadori Rähni og sagði hann undirbúning hafa verið óvenjulega snúinn vegna covid19 og svo innrásarinnar í Úkraínu. Síðasta hátíð fór fram 2019. Selvadori þakkaði fjölmörgum sem lagt hafa hönd á plóg við undirbúning hátíðarinnar, sem sérstaklega færði hann Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra fyrir hans framlag.

Styrktaraðilar: Tónlistarskóli Bolungarvíkur, Bolungarvíkurkaupstaður, Uppbyggingarsjóður Vestfjarða, Harpa, Icelandair Hotels, Hótel Ísafjörður, Elísabet Guðmundsdóttir og Björgvin Bjarnason og Orkubú Vestfjarða.

Oliver Rähni ásamt Kyiv Soloists.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri ávarpar gestina.

DEILA