Hólmavík: bætt úr frágangi efnis í uppfyllingu

Uppfyllingin eftir frágang. Mynd: Þorgeir Pálsson.

Bætt hefur verið úr frágangi efnis í uppfyllingu vegar á Hólmavík og gengið snyrtilega frá því að sögn Þorgeirs Pálssonar, sveitarstjóra.

Ætlunin var að nýta efnið sem fellur til vegna niðurrifs söluskála N1 á Hólmavík til uppfyllingar í veg innan bæjar í þorpinu. Þorgeir staðfestir að farist hafi fyrir að  umhverfis- og skipulagsnefnd Strandabyggðar gefi út framkvæmdaleyfi fyrir breikkun vegarins en úr því verði bætt á næsta fundi nefndarinnar. Þorgeir segir ljóst, í skýringum sem hann gefur á vefsíðu Strandabyggðar, að verktaki hafi verið „í góðri trú að nýta afganga í hagræðingar- og sparnaðarskyni í undirlag fyrir breikkun á vegi, líkt og gert hefur verið áður.  Búið er að ganga vel og snyrtilega frá þessari viðbót á veginum, eins og myndin sýnir.  Var þetta gert í samráði við heilbrigðisfulltrúa.“

Hann segir í Strandabyggð vera einn skilgreindur urðunarstaður sem er á sorphaugum sveitarfélagsins.  Því er ekki hægt að tala um urðun innanbæjar í þessu tilviki heldur nýtingu á steypuafgöngum sem undirlag í breikkun vegar.

DEILA