Árleg fjöruhreinsun á Rauðasandi

Laugardaginn 2. júlí sl. voru fjörur á Rauðasandi hreinsaðar í sjöunda sinn. Að verkefninu stóðu Umhverfisstofnun, landeigendur, Vesturbyggð og Náttúrustofa Vestfjarða. Árlega er óskað eftir sjálfboðaliðum til aðstoðar og í ár komu alls 22 að verkinu. Hreinsun fer þannig fram að smárusli er safnað í margnota poka en stærri hlutir eru dregnir saman í hrúgur og hirtir upp af stórvirkum vélum sem skila því í gám. Veður var þurrt og stillt og sólin reif reglulega af sér á meðan á hreinsun stóð. Óvenju lítið var af rusli m.v. fyrri ár en meðal þess sem var fjarlægt voru stór og smá plastílát, fiskikör, gömul net, kaðalspottar o.fl.

Hluti af fjöruhreinsuninni er unnin í tengslum við OSPAR-samninginn sem Ísland er aðili að en Rauðisandur er ein þeirra fjara á Íslandi sem árlega eru vaktaðar í tengslum við hann. OSPAR hluti verkefnisins er unninn á þann hátt að afmarkaður hefur verið 100 metra kafli á ströndinni sem hreinsaður er árlega, allt rusl greint og talið og niðurstöðurnar skráðar í gagnagrunn OSPAR að því loknu.

Náttúrustofa Vestfjarða sér um vettvangsvinnuna fyrir hönd Umhverfisstofnunar. OSPAR samningurinn gengur út á verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, meðal annars með því að draga úr mengun frá landi og uppsprettum á hafi. Á hverju ári berst mikið af rusli í hafið og safnast saman á hafsbotni, úti á opnu hafi eða rekur upp í fjörur og þarf mjög víðtækt samstarf að koma til við lausn á vandamálinu, meðal annars með forvörnum.

DEILA