Uppskrift vikunnar – Sjávarréttasúpa

Þessi súpa er í miklu uppáhaldi hjá mér og hana má vel útbúa daginn áður en geyma þá fiskinn sér. Eins og með flestar súpur er þessi jafnvel betri daginn eftir. Ég hef líka oft notað lúðu í súpuna en auðvitað er um að gera að nota það hráefni sem ykkur finnst best.

Innihald:
2 msk. smjör
200 g laukur
2 hvítlauksrif
250 g gulrætur
150 g rauð paprika
300 g þorskhnakki eða langa
200 g lax

100 g rækjur
500 ml rjómi
1 l vatn
2 fiskiteningar eða humarkraftur

1 dl hvítvín
2 dósir hakkaðir lífrænir tómatar
2 msk. tómatpúrra
1/2 tsk. karrý
1 msk. fiskikrydd t.d. frá Pottagöldrum
salt
pipar

Aðferð:
Saxið grænmetið smátt og steikið upp úr smjörinu uns laukurinn verður glær. Þá er vatnið sett saman við og krafturinn. Látið suðuna koma upp. Þá fer rjóminn og kryddið saman við, tómatpúrran og tómatarnir. Látið suðuna koma aftur upp. Lækkið undir og látið malla í 10 mínútur. Saltið og piprið eftir smekk og bætið hvítvíninu við. Setjið svo fiskinn út í vel heita súpuna 10 mínútum áður en súpan er borin á borð.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA