Innbakað lambalæri
Þeir sem ætla ekki að leggja land undir fót um Hvítasunnuna vilja nú kannski gera vel við sig heima, þessi uppskrift er svo sannarlega öðruvísi og smakkast mjög vel.
Gaman að breyta út af vananum með lambalæri þó gamla góða “ömmu” uppskriftin að sjálfsögðu stendur ávallt fyrir sínu.
Innbakað lambalæri
2 1/2 kg úrbeinað lambalæri
25 g porcini sveppir, þurrkaðir
1/2 papaya aldin
1/2 pera
50 g þurrkaðar fíkjur
200 g niðursneitt beikon
2 msk. steinselja
1 msk. basil
1 msk. oregano
1 msk. paprika
1 tsk. pipar
1 egg
2 pakkar smjördeig
Lambalærið er úrbeinað og fita að
mestu leyti fjarlægð. Steinselju, basil, oregano, papriku og pipar er blandað saman og sett á kjötið. Mikilvægt er að allt kjötið sé kryddað með blöndunni. Kjötið er síðan snöggsteikt til að loka því. Þurrkaðir sveppirnir eru lagðir í volgt vatn og látnir liggja þar í hálftíma. Þeir eru síðan þerraðir og vökvinn lagður til hliðar því að hann nýtist í sósuna.
Ávextirnir, peran, papayað og fíkjurnar, eru skornir niður og settir í kjötið ásamt sveppunum. Bæta má við kryddi ef vill.
Smjördeig má fá frosið í skífum, sem þarf að fletja út og setja saman. Þegar búið er að fletja deigið er kjötið sett ofan á það. Síðan er deiginu vafið utan um kjötið. Ef ástæða þykir er hægt að festa kjötið með tannstönglum, en einnig er hægt að treysta á að deigið haldi kjötinu með fyllingunni
saman.
Búast má við því að afgangur verði af deiginu og þá er upplagt að draga fram smákökumót og skera út engla og jólasveina til að skreyta steikina. Þegar deigið hefur verið sett utan um steikina er tekið egg og það hrært og síðan sett örlítið vatn saman við. Blandan er borin á deigið með pensli áður en steikin er sett í ofninn. Best er að elda hana við um 200°C í 20 mínútur, lækka svo hitann í 180°C í 40 mínútur. Þá er steikin tilbúin.
Sósa
sveppasoð
1 askja portobello sveppir
50 g rifsber
50 g krækiber
2 dl rauðvín
maísenamjöl
50 g rjómaostur
Helmingnum af rauðvíninu er blandað saman við sveppasoðið og blandan hituð þar til sýður. Látið sjóða og lækka aðeins í pottinum áður en ostinum og berjunum er bætt saman við. Sveppirnir steiktir og bætt út í sósuna þegar 5 mín. eru eftir af suðutíma. Ef sósan er ekki nægilega bragðmikil má bæta í hana kjötkrafti. Hristið saman vatn og maísenamjöl og blandið út í sósuna til að þykkja hana.
Halla Lúthersdóttir