Óshólaviti í Bolungarvík er staðsettur nálægt Sjóminjasafninu Ósvör sem er vinsæll ferðamannastaður.
Frá vitanum er frábært útsýni út yfir Ísafjarðardjúp og þaðan má einnig sjá fjölbreytt dýralíf og stundum hvali.
Vitinn var byggður árið 1937, hann stendur á hillu í fjallinu og er ljóshæð hans yfir sjávarmáli 30 metrar.
Ofantil við Óshólavita er gamall vegur sem er gaman að ganga upp, en sú ganga er létt og tekur um 15 mínútur.
Uppi er lítil flöt þar sem gott er að setjast niður, virða fyrir sér undur veraldar, bláan himin, opið haf og fjallahringinn sem umlykur Bolungarvík.
Óshólaviti er svonefndur landsviti en landsvitar eru til leiðbeiningar á almennum siglingaleiðum og eru í eigu og umsjá ríkisins.