Hafrannsóknastofnun hefur birti ráðgjöf fyrir komandi fiskveiðiár 2022/2023.
Samdráttur er í ráðlögðum þorskafla. Í samræmi við aflareglu stjórnvalda er lagt til að hámarksafli þorsks á næsta fiskveiðiári verði alls 208.846 tonn, en á yfirstandandi fiskveiðiári er hann tæplega 222.737 tonn.
Samdrátturinn á milli fiskveiðiára er því um 6% en þess ber að geta að frá fiskveiðiárinu 2019/2020 er samdrátturinn ríflega 23%.
Samddráttur í ráðlögðum afla gullkarfa er 20% frá fyrra fiskveiðiári. Þessi lækkun bætist ofan á lækkun síðustu ára en núverandi tillaga er rúmlega helmingur þess afla sem ráðlagður var árunum 2016 og 2017. Helgast þessi lækkun af nýliðunarbresti í stofninum sem litlar skýringar eru á.
Hins vegar er ráðlögð myndarleg aukning í ýsuafla og lagt til að aflamark í ýsu verði 62.219 tonn sem er 23% aukning frá yfirstandandi fiskveiðiári. Jafnframt er gert ráð fyrir að stofninn muni stækka á komandi árum.
Samtök í sjávarútvegi bregðast við með mismunandi hætti. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) mælast til þess að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar verði fylgt en Landssamband smábátaeigenda segir: “ Skerðingar undanfarinna ára eru ekki í neinu samræmi við upplifun sjómanna um hvernig gengur að veiða. T.d. hefur meðalafli í róðri hjá strandveiðibátum farið vaxandi á undanförnum árum og ekkert lát á því í ár.“