Mygla greindist í þremur kennslustofum Grunnskólans á Ísafirði í byrjun maí sl. Rýmin voru innsigluð með plasti og útsogi komið fyrir í stofum til þess að mynda undirþrýsting í álmunni svo mygluagnir myndu ekki berast um skólann.
Í minnisblaðinu sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs kemur fram að eftir að byggingarhlutar voru opnaðir hafi sú ályktun verið dregin að frágangur við smíði skólans hafi ekki verið skv. þeim kröfum sem gerðar eru í dag, a.m.k. ekki m.t.t. frágangs við steypu og járnabindingu.
Á meðfylgjandi mynd sést hvernig járnabinding hefur ekki verið nægjanlega djúpt í steypunni og víða staðið upp úr og hulin með múrkápu. Raki hefur komist að járnum og oxun hafist, sem í framhaldi hefur valdið þenslu og sprengt múrinn.
Umfang skemmda er töluvert og fyrirséð að skipta þarf út öllum gluggum og glerjum í bæði á suður og norðurgafli. Ástand barnaskólans að utan er slæmt, víða má sjá sprungur, eldri viðgerðir og það sem hefur verið áhlaðandi síðustu ár. Til þess að koma mannvirkinu í viðunandi ástand er talið grundvallaratriði að þétta húsið að utan.
Helstu forgangsmál eru að:
- Fjarlægja ónýta glugga og gler
- Fara í steypuviðgerðir m.t.t. járnabindingar
- Þétta sprungur að utan og innan
- Endurnýja gler og glugga
- Múra hús að utan
- Skipta út gólfdúkum