Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík var inntur eftir því hvers vegna fasteignaverð á Vestfjörðum hækkaði mest í Bolungavík , um 25,3% milli ára en hækkunin í Ísafjarðarbæ var 18,7%.
„Þetta er, held ég, tvíþætt. Annarsvegar hefur fjölgað nokkuð fasteignum í Bolungarvík undanfarið. Margar nýjar íbúðir og atvinnuhúsnæði eru að koma á markaðinn sem eru nú þegar skráðar í fasteignaskrá. Ef maður skoðar fasteignamat frá 2022, þá hefur fjölgað um 25 fasteignar milli ára. Hinsvegar er sennilega stærsti þátturinn einfaldlega hækkun fasteignaverðs, en fasteignamat tekur mið að þróun kaupsamninga á landinu með sérstakri áherslu á tilheyrandi nágrenni viðkomandi fasteignar.
Ég held því að þessi mikla hækkun endurspegli þann mikla kraft sem er til staðar í Bolungarvík þessa stundina og hefur verið undanfarin ár. Það er mikil uppbygging í Bolungarvík og fyrirséð að sú uppbygging mun halda áfram næstu misseri. Fólk hefur trú á svæðinu og það endurspeglar þróun fasteignaverð o.þ.l. þróun fasteignamatsins.
Ef ég tek nærtækt dæmi um sjálfan mig þá hefur fasteignamatið á mínu húsi í Bolungarvík hækkað um 35% frá síðasta ári. Það hlýtur að þýða að ég hafi tekið góða ákvörðun um að fjárfesta í fasteign í Bolungarvík.“