Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir að tekið sé tillit til umsóknar félagsins um laxeldi í Djúpinu í tillögu svæðisráðs um strandsvæðaskipulag og að eldið verði heimilað þar sem kvíastæðin eru fyrirhuguð. En hann vekur athygli á því að ekki sé gert ráð fyrir frekari vexti eldisins. Aðspurður um tillöguna um lokun Jökulfjarða fyrir eldinu segir Hembre að hún sé mikill ókostur fyrir þróun samfélaganna og eldisins. „Það eru nokkur góð tækifæri til þess að þróa eldið á þessu svæði sem á að skoða betur áður en ákvörðun er tekin.“
„Það er einkennilegt að loka Jökulfjörðum fyrir laxeldi án þess að gera burðarþolsmat og greina væntanlega verðmætasköpun og áhrif hennar á nærliggjandi sveitarfélög. Þessi tillaga virðist ekki vera studd neinum vísindalegum rökum. Höfum í huga að mestöll strandlengjan á landinu er nú þegar lokuð fyrir laxeldi. Skautuð umræða um atvinnustarfsemi og umhverfi er ekki rökrétt. Á sunnanverðum Vestfjörðum getum við séð að laxeldi og ferðaþjónusta styður hvort við annað, rétt eins og fiskveiðar og önnur starfsemi. Við vonumst til þess að málið þróist áfram með uppbyggilegum hætti svo hagsmunaaðilar skilji hvað verið er að segja já við og hverju er verið að hafna.“