Valdimar verður bæjarstjóri -þrír Bolvíkingar kjörnir í sveitarstjórn

Valdimar Víðinsson.

Valdimar Víðisson oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði var einn þriggja Bolvíkinga sem hlutu kosningu um síðustu helgi í sveitarstjórn á höfuðborgarsvæðinu. Valdimar hafði verið varabæjarfulltrúi og tók við efsta sætinu nú. Í gær var gengið frá meirihlutasamkomulagi milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og verður Valdimar bæjarstjóri frá 1. janúar 2025 til loka kjörtímabilsins.

Valdimar er sonur Víðis Jónssonar, skipstjóra og Jónu Arnórsdóttur frá Ísafirði.

Magnea Gná Jóhannsdóttir frá Hanhóli í Bolungavík var ein fjögurra kjörinna borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í Reykjavík. Hún er dóttir Guðrúnar Stellu Gissunardóttur og Jóhanns Hannibalssonar.

Magnea Gná Jóhannsdóttir.

Þriðji Bolvíkingurinn er Dagný Kristinsdóttir sem var kosin í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir Vini Mosfellsbæjar. Dagný er dóttir Aldísar Rögnvaldsdóttur og Kristins H. Gunnarssonar.

Dagný Kristinsdóttir.

Dagný og Valdimar voru í sama bekk í Grunnskóla Bolungavíkur og eru auk þess þremenningar, afkomendur Margrétar Guðfinnsdóttur frá Litlabæ og Sigurgeirs Sigurðssonar, skipstjóra frá Markeyri í Skötufirði. Til gamans má geta þess að verðandi bæjarstjóri í Garðabæ, Almar Guðmundsson er barnabarn Margrétar og Sigurgeirs og því náskyldur Valdimar og Dagnýju.

DEILA