Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í svari við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi að ekki finnist skip til að taka við af Baldri við siglingar yfir Breiðafjörð á meðan verið væri að smíða nýja ferju.
Sigurður Páll sagði öryggismál ferjunnar í ólagi og skipið ekki samboðið þeirri þjónustu sem farið er fram á. Ef smíða eigi nýtt skip sé ekki boðlegt að núverandi ferja sé í rekstri þau ár sem það tekur, því hún sé orðin gömul og úr sér gengin. Finna þurfi skip í millitíðinni.
Sigurður Páll kvaðst eiga bágt með að trúa að ekki finnist skip og hvatti fólk á vegum ráðherra til að reyna betur. „Herjólfur gamli er ágætis skip en það er líka gamalt og lúið og varla boðlegt “ sagði hann.