Reykhólahreppur er stórt og víðfeðmt sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum.
Upprunalega náði hreppurinn frá Kambsfjalli og vestur að Múlá í Þorskafirði en hinn 4. júlí 1987 voru allir hreppir Austur-Barðastrandarsýslu; Flateyjarhreppur, Geiradalshreppur, Gufudalshreppur og Múlahreppur sameinaðir undir nafni Reykhólahrepps.
Í dag nær hreppurinn frá Gilsfirði í austri til Kjálkafjarðar í vestri og nær yfir 1.090 km2.
Firðirnir í Reykhólahreppi eru þrettán talsins og heita frá vestri til austurs; Kjálkafjörður, Mjóifjörður, Kerlingarfjörður, Vattarfjörður, Skálmarfjörður, Kvígindisfjörður, Kollafjörður, Gufufjörður, Djúpifjörður, Þorskafjörður, Berufjörður, Króksfjörður og Gilsfjörður og opnast þeir allir út í norðanverðan Breiðafjörðinn. Reykhólaþorpið liggur á mótum Berufjarðar og Breiðafjarðar.
Helstu eyjarnar í Breiðafirði voru margar í byggð fyrrum en eru nú flestar í eyði. Þær helstu sem tilheyra Reykhólahreppi eru Flatey, Svefneyjar, Skáleyjar, Sviðnur og Látralönd, Akureyjar, Bjarneyjar, Hergilsey, Ólafseyjar, Stagley og Oddbjarnarsker.