Eigið fé Orkubús Vestfjarða var í árslok 2021 nærri 10 milljarðar króna og hækkaði um rúmar 900 milljónir króna milli ára. Hagnaður árs varð 328 m.kr. en stærstur hluti hækkunarinnar er kominn til vegna endurmats á eignarhlut Orkubúsins í Landsneti.
Á árinu 2021 voru samþykkt lög á Alþingi þess efnis að íslenska ríkið skuli vera eigandi Landsnets frá og með 1. júlí 2022. Orkubú Vestfjarða hefur fram að þessu fært eignarhlut sinn í Landsneti á kostnaðarverði í en er nú fært á gangvirði hlutarins. Gangverðið er áætlað sem hlutdeild af eignarhlut Orkubúsins í eigin fé Landsnets og við það hækkar matsverðið um 577,4 m.kr. og verður 930 m.kr.
Tekið er þó fram í ársreikningi Orkubúsins að óvissa ríkir enn um það hvert endanlegt söluverðmæti hlutarins verður.
En engu að síður verður þessi breyting á eignarhaldi Landsnets til þess að Orkubú Vestfjarða fær óvæntan fjárhagslegan ávinning upp á hundruð milljóna króna.