Við afgreiðslu ársreiknings 2021 fyrir Ísafjarðarbæ, sem samþykktur var með atkvæðum allra 9 bæjarfulltrúa, kom fram afar ólík sýn meirihlutans og minnihlutans á fjárhagsstöðunni.
Í bókun bæjarfulltrúa meirihlutaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er lögð áhersla á að reikningurinn sýni að gott aðhald hafi verið með rekstrinum og að skuldaviðmið hafi lækkað á kjörtímabilinu.
„Við yfirferð á ársreikningi Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2021 eru nokkur atriði sem vert er að gera sérstaklega grein fyrir. Þegar útgjöldin eru skoðuð þá sést hversu gott aðhald hefur verið með rekstrinum. Laun og launatengd gjöld fara aðeins 0,7% fram úr áætlun sem telst eiginlega innan skekkjumarka. Annar rekstrarkostnaður fer að sama skapi aðeins 1% fram úr áætlun.“ og „Þá er rétt að taka fram að í lok ársins 2021 er skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar 100,4% og hefur því lækkað frá upphafi kjörtímabilsins svo allt tal um að skuldastaða bæjarfélagsins hafi snarversnað er augljóslega blekking.“
Dýrt að skulda- ekki hægt að halda áfram á þessari braut
Annað hljóð er í bókun bæjarfulltrúa Í listans. þar er lögð áhersla á alvarlega fjárhagsstöðu í rekstri sveitarfélagsins, þar sem vaxtakostnaður hafi farið vaxandi og að skuldir ásamt skuldbindingum nálgist 9 milljarða króna. verkefnið næsta kjörtímabil sé að takast á við fjárhagsvandann.
„Alvarleg staða er á rekstri Ísafjarðarbæjar. Annað árið í röð stöndum við frammi fyrir gríðarlegum rekstarhalla. Tapið árið 2020 var 608 m.kr. og í ársreikningi ársins 2021 er er hallinn 396. m.kr. Þetta er rúmur milljarður á tveimur árum. Þess má geta að tekjur eru þó að aukast um 694 m.kr.
Það er dýrt að skulda mikið og voru vaxtagjöld Ísafjarðarbæjar 280 m.kr. árið 2020 og 404. m.kr. fyrir árið 2021. Það væri margt hægt að gera við þessa peninga í stað þess að borga vexti. Það gefur þó augaleið að við getum ekki haldið áfram á þessari braut.
Skuldir og skuldbindingar Ísafjarðarbæjar eru tæpir 9 milljarðar árið 2021. Verðbólgan er sú mesta í 12 ár og útlitið er hreint ekki gott, hvorki til skemmri eða lengri tíma. Vonandi verður næsta bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samhuga í því að takast á við vandann, og leita allra leiða til að auka tekjur og ná böndum yfir kostnaðinn.“