Nú stendur yfir fjáröflunar- og árvekniátak Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Markmið átaksins er að selja ný Lífið er núna armbönd, fá fólk til að koma saman og sýna samstöðu með því að perla armbönd og sýna almenningi inn í reynsluheim félagsmanna Krafts og þeim áskorunum sem verða á vegi þeirra.
Um 70 ungir einstaklingar greinast á ári hverju og hefur það bæði áhrif á þau greindu sem og fjölskyldu og ástvini þeirra. Vitundarvakningin er hafin og stendur til 6. júní ogætlar Kraftur að selja armbönd á tímabilinu sem verða seld í takmörkuðu upplagi en öll armböndin eru perluð af sjálfboðaliðum.
„Hver perla hefur sína sögu er yfirskrift átaksins í ár og vísar til lífreynslu okkar félagsmanna og hvaða þýðingu „Lífið er núna“ armbandið hefur fyrir þau. Sem fyrr verður slagorð Krafts „Lífið er núna“ í hávegum haft og munum við hvetja fólk til að „sýna Kraft í verki“ og bera nýja armbandið. En með því að bera armbandið sýnir fólk stuðning sem það jafnvel áttar sig ekki alveg á en félagsmenn okkar finna ætíð fyrir meðbyr og stuðningi þegar þeir sjá aðra með armböndin,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.
Armböndin eru komin í forsölu í vefverslun Krafts á www.lifidernuna.is og verða einnig í völdum verslunum Krónunnar sem og vefverslun Krónunnar eftir risaperluviðburð sem verður í Hörpu núna sunnudaginn, 22. .maí, en þá koma sjálfboðaliðar saman að perla armbönd fyrir söluna. Armböndin kosta 2.900 krónur og rennur allur ágóði af þeim í starfsemi Krafts og í að styðja þar með við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum.