Gallerí Úthverfa: Linus Lohmann: 20.5 – 8.6 2022 – sýningaropnun

Föstudaginn 20. maí kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Linus Lohmann í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið “…something that was, & isn´t” og stendur til 8. júní. Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar og boðið verður uppá létt spjall og veitingar.

Á sýningunni eru fjögur prentverk í lit og skúlptúr. Verkin eru sprottin af hughrifum og minningum um nokkrar byggingar sem hýstu Tækniminjasafn Austurlands og skemmdust í aurskriðum á Seyðisfirði í desember 2020. Byggingar safnsins höfðu að geyma marga hluti sem eru og voru heimild um tæknisögu svæðisins og hýstu einnig nothæft tréverkstæði í gömlu skipasmíðastöðinni og prentsmiðju í fyrrum vélasal. Bæði verkstæðin nýttust Lohmann vel á sínum tíma sem uppspretta innblásturs og verkstæðisiðkunar.

Myndirnar sem teknar voru við hreinsun eftir slysið sýna eftirleikinn og leifar tveggja herbergja á safninu, kaffistofu og skrifstofu.Flestir upplifðu þessi herbergi alltaf sem einhvers konar tímahylki, kunnuglegt og tímalaust rými.Myndirnar sýna þessa staði eins og þeir komu undan hamförunum. Rústað af náttúruöflunum sem knúin voru áfram af leðju og vatni.Fyrir Lohmann kalla myndirnar fram frumskóg af órökréttu minni, brengluð brotin vekja endurminningar og örva tilraunir til að endurbyggja rýmin eins og þau voru.Myndirnar eru afritaðar með marglitu ljósfjölliða ætingarferli.
Prentin eru innrömmuð með frekar óvenjulegu efni, POM-plasti, sem er almennt notað í fiskiðnaði.
Skúlptúrinn sem er til sýnis ásamt grafíkmyndunum minnir á aflagaðar byggingarnar. Við virðum fyrir okkur brotnar og breyttar spýtur úr hráu timbri, sem vantar allar vísbendingar um fyrri tilgang, sem aftur kallar fram nýjar birtingarmyndir.Lohmann notaði sömu gufubeygingartækni og notuð var til að smíða tréskip til að móta skúlptúrinn, og vísar þannig til fyrrum skipasmíðastöðvarinnar sem eyðilagðist í skriðunni.

Nú hefur svæðið verið hreinsað og fátt sýnilegt af því sem áður var. Það er því einungis minningin sem lifir eftir frá þeim tímum sem það var í notkun.

DEILA