Héraðsskjalasafnið á Ísafirði fékk nú nýverið merkilega gjöf frá Gísla Jóni Hjaltasyni á Ísafirði en um er að ræða fágæta 10 króna vöruávísun frá verslun Árna Sveinssonar á Ísafirði.
Árni Sveinsson (1858–1939) var þekktur athafnamaður á Ísafirði og víðar og fékkst við ýmislegt á lífsleiðinni, eins og fram kemur í eftirfarandi minningargrein sem birtist í dagblaðinu Vísi 14. febrúar 1939:
„Árni Sveinsson, fyrrum kaupmaður á Ísafirði, er borinn til moldar hér í dag, en hann andaðist 8. febr. s.l. eftir langvarandi vanheilsu, rúmlega áttræður, fæddur að Mýrhúsum í Eyrarsveit 27. maí 1858. Árni Sveinsson var alkunnur maður og vann flest af störfum sínum á Vesturlandi, um langt skeið einn af mestu og víðsýnustu athafnamönnum fjórðungsins, og lagði gjörfa hönd á margt. Hann var hagur maður og listelskur og fróðleiksfús og hagsýnn framkvæmdamaður í senn. Þess vegna kom hann svo víða við í störfum sínum og hratt mörgu nytsamlegu í framkvæmd.
Hann lærði ungur trésmíði hjá Jakob Sveinssyni, hér í Reykjavík, og stundaði síðan í 5 ár húsasmíði á Flateyri og seinna smíðar á Ísafirði og var þar einn af stofnendum Iðnaðarmannafélagins. Hann var vandvirkur maður og smekkvís. Lengi síðan greip hann oft í smíðar og gerði ýmsa laglega gripi.
Hugur hans hneigðist einnig snemma í aðrar áttir og haustið 1887 fór hann utan og gekk í verslunarskóla Wiréns í Kaupmannahöfn. Næsta ár fór hann að versla á Ísafirði og gerðist brátt umsvifamikill atvinnurekandi, þótt hann byrjaði í smáum stíl. Auk verslunar sinnar átti hann um skeið og gerði út sex skip, þrjá kúttera og þrjú minni þilskip. Seinna fluttist hann til Reykjavíkur og varð forstjóri klæðaverksmiðjunnar Nýja Iðunn. Þó að hann hætti að mestu sjálfstæðum framkvæmdum og atvinnurekstri um stríðslokin var hann sívinnandi einnig eftir það og fram á síðasta ár, og vann þá aðallega skrifstofustörf, lengst hjá Rafveitunni.
Auk þessa, sem nú var talið, fékst Árni Sveinsson við margt fleira. Einu sinni var hann organisti í Holtskirkju og stofnaði söngflokka, fyrst á Flateyri og síðan á Ísafirði og hafði einu sinni 50 manns í einu í söngkenslu, því hann var söngfróður og söngelskur. Hann stofnaði líka Leikfélag Ísafjarðar, og var lengi leiðbeinandi þess. Um skeið var hann einnig kennari og einn af þeim fyrstu, sem benti á nauðsyn þess, að skólarnir leiðbeindu í heimilisiðnaði. Hann var um nokkur ár skólastjóri Iðnskólans á Ísafirði. Hann beitti sér fyrir stofnun bókasafns og lestrarfélags Önfirðinga.
Hann hafði snemma hug á þjóðmálum og stofnaði ásamt Jóni Kjærnested málfundafélagið „Hinir 12″ á Ísafirði (1883). Hann var einnig einn aðalmaður hinnar vestfirsku hreyfingar, sem var undanfari þjóðliðsins. Hann varð snemma áhrifamaður í héraðsmálum, i hreppsnefnd í Önundarfirði og í bæjarstjórn Ísafjarðar í 18 ár. Þar var hann aðalhvatamaður þess, að vatnsveita var lögð og sá um verkið, og sem veganefndarformaður hafði hann umsjón með mestallri gatnagerð bæjarins. Hann var einnig einn af stofnendum Styrktar- og sjúkrasjóðs verslunarmanna á Ísafirði og var í fleiri nefndum og félögum.
Fyrri kona hans var Guðrún Brynjólfsdóttir frá Hjarðardal í Önundarfirði (d. 1934). Þau áttu 5 börn, Nikolína dóttir þeirra er dáin, en á lífi eru: Ragnar yfirlögregluþjónn i Winnipeg, Lára, kona Steingríms rafmagnsstjóra Jónssonar, Brynjólfur lögfræðingur og Árni kaupmaður i Vöruhúsinu. Síðari kona Árna er Jóhanna Gísladóttir. Þannig var Árni Sveinsson eftirtektarverður fulltrúi fyrir tímabilið kringum síðustu aldamót, með umbótaáhuga þess, stórhug og ýmislegri framkvæmdaviðleitni. Hann var einn af forgöngumönnum síns héraðs með bjartsýni og fjölþætta hæfileika. Hans verður því lengi minst vestur þar og af öðrum þeim, sem þektu störf hans og hæfileika. V. Þ. G.