ARNA MJÓLKURVÖRUR Á BANDARÍKJAMARKAÐ

Hálfdán Óskarsson framkvæmdastjóri Örnu ásamt Örnu Hálfdánardóttur, markaðsstjóra Örnu og Gunnari Birgissyni framkvæmdastjóra Reykjavik Creamery

Forsvarsmenn Örnu mjólkurvinnslu í Bolungarvík og forsvarsmenn Reykjavík Creamery mjólkurvinnslu í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum skrifuðu nýverið (20. maí 2022) undir viljayfirlýsingu um samstarf á milli fyrirtækjanna um framleiðslu og sölu á Örnu mjólkurvörum í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Örnu og Reykjavík Creamery.


Um er að ræða laktósafríar mjólkurvörur Örnu sem eru á markaði hérlendis, auk framleiðslu á próteinríkri hafrajógúrt sem Arna hyggst setja á markað á Íslandi í sumar. Viljayfirlýsingin felur í sér að félögin munu kynna vörurnar fyrir söluaðilum í Bandaríkjunum, meðal annars í gegnum tengslanet Reykjavík Creamery. Gert er ráð fyrir að flytja út vörur frá Íslandi í fyrstu, en síðar er stefnt að því að Reykjavík Creamery framleiði vörurnar í nýrri verksmiðju sinni í Pennsylvaníu.


Hálfdán Óskarsson framkvæmdastjóri Örnu:
„Það er ákaflega spennandi tækifæri að stofna til samstarfs við Reykjavik Creamery með það að markmiði að framleiða vörur Örnu í Bandaríkjunum. Laktósafría gríska jógúrtin og skyrið hefur notið fádæma velgengni hér á landi og við höfum væntingar um að það sama verði með próteinríku hafrajógúrtina sem kemur í sölu hérlendis á næstunni. Við höfum í gegnum tíðina fengið fjölmargar fyrirspurnir að utan, frá aðilum sem lýst hafa yfir áhuga á að selja okkar vörur í Bandaríkjunum, en höfum ekki talið það raunhæft nema með því að finna traustan framleiðanda þar í landi, sem býr yfir
þekkingu og tækjabúnaði til að framleiða okkar vörur í samræmi við þær gæðakröfur sem við gerum.
Við höfum fylgst með uppbyggingu Reykjavik Creamery frá upphafi og höfum verið ráðgefandi með ýmis tæknimál í því ferli og hlökkum til að skjóta nýjum vaxtarsprota undir starfsemi Örnu með samstarfi við Reykjavik Creamery. Þannig munum við nýta betur þá miklu vöruþróun sem við höfum lagt í á undanförnum árum, – á stærra markaðssvæði en Íslandi.“


Gunnar Birgisson framkvæmdastjóri Reykjavik Creamery:
„Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með velgengni Örnu á Íslandi og þeirri frábæru vöruþróun sem þar hefur átt sér stað. Laktósafríar sýrðar mjólkurvörur Örnu hafa slegið í gegn á Íslandi og ekki nokkur vafi í mínum huga að þær munu jafnframt njóta mikillar hylli á meðal bandarískra neytenda. Einnig verður ákaflega spennandi að fá tækifæri til að framleiða hágæða hafrajógúrt sem Arna hefur nýverið þróað, en mikill áhugi er fyrir slíkum „vegan“ vörum í Bandaríkjunum og vaxtarmöguleikar miklir. Tækjakostur og þekking starfsmanna Reykjavik Creamery gerir okkur kleift að tryggja gæðin við framleiðslu á vörum Örnu. Umhverfisvænar umbúðir Örnu eiga jafnframt eftir að vekja athygli og
njóta vinsælda vestanhafs, enda rík krafa þar, eins og hér á landi, að draga úr notkun plasts undir matvæli. Við horfum með tilhlökkun til farsæls samstarfs við Örnu á komandi árum.“

Um Örnu:
Arna er mjólkurvinnsla í Bolungarvík á Vestfjörðum sem sérhæfir sig í framleiðslu á mjólkurvörum án laktósa. Afurðir Örnu eru framleiddar úr íslenskri kúamjólk. Vörurnar eru ferskar og heilnæmar, upprunnar í hreinni íslenskri náttúru og henta öllum sem neyta ferskra mjólkurafurða, en sérstaklega þeim sem hafa mjólkursykursóþol eða kjósa mataræði án laktósa. Arna hefur nýverið þróað próteinríka hafrajógurt sem væntanleg er í verslanir hér á landi innan tíðar.
U

Um Reykjavík:
Reykjavik Creamery tók til starfa í lok árs 2019 og sérhæfir sig í framleiðslu á sýrðum mjólkurvörum í verktöku (e. co-packing) fyrir stórmarkaði og aðra heildsölukaupendur í Bandaríkjunum. Helstu framleiðsluvörur fyrirtækisins eru skyr og grísk jógúrt. Fyrirtækið er staðsett í nýju framleiðsluhúsnæði í suður Pennsylvaníu – í grennd við helstu flutningaleiðir
norðausturstrandarinnar. Reykjavik Creamery notast við s.k. örsíunarbúnað (e. ultra-filtration) sem tryggir hátt próteinhlutfall og mikil gæði. Fyrirtækið er með mjólkurkaupasamninga við nokkur af helstu mjólkursamlögum Bandaríkjanna, bæði fyrir hefðbundna og lífræna mjólk og er vottað af viðurkenndum aðilum sem hágæðaframleiðandi. Framleiðsluvörur fyrirtækisins má finna í mörgum af helstu stórmörkuðum Bandaríkjanna. Félagið er í eigu íslenskra fjárfesta auk stofnanda þess og framkvæmdastjóra, Gunnars Birgissonar.

Nýjar umbúðir hafrajógúrts og hafraskyrs. Vara sem hefur verið í þróun hjá Örnu undanfarið ár.

DEILA