64 ára Bolvíkingur gengur yfir Grænlandsjökul

Tvær konur eru í leiðangrinum Elísabet Jóna Sólbergsdóttir til vinstri og Lilja Stefánsdóttir.

Síðasta laugardag fór sex manna hópur í Grænlandsjökulsleiðangri Arctic Hiking göngu yfir Grænlandsjökul.

Leiðangursstjóri er Einar Torfi Finnsson en með honum eru Bolvíkingurinn Elísabet Jóna Sólbergsdóttir, Lilja Stefánsdóttir, Ólafur Darri Andrason, Jón Viðar Baldursson Ágúst Jóel Magnússon.

Lagt var af stað frá Tasiilaq á austurströndinni og hefur ferðin gengið vel það sem af er.

Fyrsta daginn voru gengnir 11,8 km á tæpum 5 klst. og var hækkun um 200 metrar og var veður mjög gott. Á mánudag voru gengnir 16,2 km. Farið var af stað í björtu veðri, en um hádegi fór að snjóa. Fjórar sólskríkjur birtust úr kófinu og hurfu jafn skjótt. Það sést enn til fjalla í suðri en fjöllin í austri eru horfin. Þriðja daginn voru gengnir 18 km á 6 virkum tímum í hægum NV vindi. Hitinn var -11° þegar farið var á fætur, en hlýnaði svo þegar á daginn leið og náði hámarkshitinn -6°. Þessi hægi vindur og „hlýindi“ gerðu það að verkum að leiðangursmenn voru að kafna úr hita. Einmana fýll birtist upp úr þurru og virti leiðangurinn fyrir sér, en lét sér fátt um finnast og forðaði sér í átt til hafs. Nú er yfirborð jökulsins orðið ósléttara og meira ber á skaföldum sem geta hægt á för segir á facebook síðu leiðangursins

DEILA