Knattspyrnudeild Vestra hefur undanfarið átt í viðræðum við Ísafjarðarbæ um byggingu fjölnota íþróttahúss.
Á fundi bæjarráðs í gær var samþykkt að leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar viljayfirlýsingu Ísafjarðarbæjar og Íþróttafélagsins Vestra vegna byggingar fjölnota íþróttahúss (knatthúss) á Torfnesi á Ísafirði, og að bæjarstjóra verið falið að vinna málið áfram með íþróttafélaginu.
Í viljayfirlýsingunni segir m.a. að:
Íþróttafélagið Vestri hefur lýst yfir vilja sínum til að taka yfir heildarumsjón og ábyrgð á verkefninu. Í því felst hönnun, framkvæmd og fjármögnun á byggingu fjölnota íþróttahús.
Ísafjarðarbær lýsir yfir vilja til að taka húsnæðið á leigu og greiða ákveðna upphæð á ári í tiltekinn árafjölda sem nánar verður kveðið á um í samningi þegar forsendur liggja fyrir. Að leigutíma loknum eignast Ísafjarðarbæ húsnæðið að fullu.
Miða skal við að heildarkostnaður við verkið verði á bilinu 550-650 milljónir króna.
Aðilar eru sammála um að nýta næstu vikur til að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu með það að markmiði að ljúka samningi milli aðila um verkefnið í apríl/maí nk. þegar allar forsendur liggja fyrir
.
Kostnaður við nauðsynlega undirbúningsvinnu greiðist af sjálfsaflafé/sjálfboðavinnu og styrkjum sem Vestri aflar og/eða Ísafjarðarbæ en sá kostnaður verður hluti af heildarkostnaði við framkvæmdina og þarf að samþykkjast fyrirfram af Ísafjarðarbæ.