Varðliðar umhverfisins, verkefnasamkeppni grunnskólabarna í 5. til 10 bekk er nú hafin í 15. sinn. Samkeppninni er ætlað að hvetja börn og unglinga til góðra verka í umhverfisvernd og gefa rödd þeirra, sýn og hugmyndum um umhverfismál aukið vægi.
Samkeppnin er hvatning fyrir nemendur og kennara til að huga markvisst að umhverfismálum og gott tækifæri til að koma á framfæri athyglisverðum verkefnum tengdum umhverfismálum sem unnin hafa verið í skólanum á skólaárinu.
Viðfangsefni verkefnanna og umfang þeirra eru opin og frjáls, en krafa er gerð um að verkefnin taki á sjálfbærni og umhverfismálum í víðum skilningi. Áhersla er lögð á hluttekningu nemenda og að verkefnið hafi jákvæð áhrif á hegðun nemenda og viðhorf samfélagsins til umhverfisins, hvort heldur er innan skólans eða utan. Þá eru skólar hvattir til að tengja verkefnin við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með einhverjum hætti.
Úrvinnsla verkefnanna og lokaskil eru engum takmörkum háð og bæði fjölbreytileika og sköpunargleði er fagnað. Verkefni fyrri ára hafa m.a. verið ljósmyndir, kannanir, samvinnuverkefni, ritgerðir, textílverkefni, ljóð, bækur, spil, veggspjöld, bæklingar, vefverkefni, leikrit, myndbönd og hljóðverk svo eitthvað sé nefnt.
Að keppninni standa umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landvernd og Miðstöð útivistar og útináms.
Skilafrestur verkefna er 25. mars 2022.
Þriggja manna valnefnd skipuð fulltrúum þeirra sem standa að keppninni velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Veitt verða viðurkenningarskjöl fyrir öll innsend verkefni og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra útnefnir Varðliða umhverfisins á athöfn sem haldin er í tengslum við Dag umhverfisins 25. apríl.