Lagt til að ívilnun rafmagnsbíla verði aukin í 20 þúsund bifreiðar

Í frumvarpi sem fjármálaráðherra- og efnhagsmálaráðaherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að hámarksfjöldi rafmagmsbifreiða sem geta notið ívilnunar frá virðisaukaskatti verði aukinn úr 15 þúsundum bílum í 20 þúsund. 

Fram kemur að mati ráðuneytisins að fjölgun undanþága frá virðisaukaskatti fyrir fimm þúsund rafmagnsbifreiðar til viðbótar við þær 15 þúsund sem heimild er fyrir í gildandi lögum hafa í för með sér mikið tekjutap fyrir ríkissjóð á árunum 2022 og 2023. Að óbreyttri hámarksfjárhæð á hvern bíl er talið að tekjutapið gæti numið 5,7 milljörðum króna.

Hámarksfjárhæð á hvern bíl lækki úr 1.560 þús. í 1.320 þús. Í frumvarpinu er einnig lagt til að núverandi hámark á niðurfelldum virðisaukskatti á hvern rafmagnsbíl verði lækkað á hvern bíl úr 1.560.000 kr í 1.320.000 kr. Þetta á að mati ráðuneytisins að verða til þess að tekjutapið af breytingunum í heild verði um 200 milljónum kr. minna en ella.

Fram kemur að vegna orkuskipta í samgöngum sé talið nauðsynlegt að auka enn meira hlutdeild rafmagnsbifreiða í umferð og því sé nú lagt til að hækka fjöldatakmörkun rafbíla sem geta notið ívilnunar frá virðisaukaskatti. Af 4.501 rafmagnsbifreið sem fékk ívilnun í fyrra fengu tæplega fjögur þúsund virðisaukaskattinn felldan niður að fullu.

DEILA