Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti einróma á fundi sínum í gær ályktun um innrás Rússa í Úkraínu. Er innrásin fordæmd og ríkisstjórnin hvött til þess að taka á móti flóttafólki. Jafnframt lýsir bæjarstjórnin sig reiðubúna til þess að taka á móti flóttafólki frá úkraínu.
Ályktunin í heild:
„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu og lýsir fullri samstöðu og stuðningi við fólkið í Úkraínu. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands sem og aðrar vinaþjóðir til að taka á móti flóttafólki og veita allan þann stuðning sem þarf til að hjálpa úkraínsku þjóðinni að komast í gegnum þessar hörmungar. Ísafjarðarbær lýsir sig reiðubúinn til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.“