Þar sem Sprengidagurinn er á þriðjudaginn ákvað ég að deila með ykkur uppáhalds baunasúpuuppskriftinni minni. Við héldum einu sinni keppni á vinnustað um hvaða baunasúpa væri best og þessi vann með yfirburðum enda uppskrift frá ömmu.
Eina sem mér finnst alveg vera ómissandi við baunasúpu er að það verður að vera beikon í henni. Ég geri súpuna á bolludeginum þar sem mér finnst hún best hituð upp. Gerir það reyndar að verkum að við borðum súpuna báða dagana en það er bara fínt.
Innihald:
2 kg saltkjöt (mér finnst best að hafa feita bita með)
2,5 l vatn
300 g – 500 gr gular baunir (því meira af baunum því þykkari súpa)
750 g gulrófur
1 laukur
300 g gulrætur
2-3 sneiðar beikon
1-2 súputeningar eða súpukraftur
Aðferð:
Það er ekki nauðsynlegt að leggja baunirnar í bleyti, en ef tíminn er naumur flýtir fyrir að gera það.
Þá eru þær lagðar í bleyti í kalt vatn í ca 12-20 klst. og geymdar þannig við stofuhita. Baununum hellt í gegnum sigti og skolaðar, settar í pott með vatninu ásamt kjötkrafti, hleypt upp suðu og froða fleytt ofan af. Soðið í ca. 30 mínútur.
Þegar bauninrnar byrja að mýkjast eru 2 – 3 bitar af kjöti settir út í en hinir soðnir sér til þess að súpan verði ekki of sölt.
Nota má soðið af kjötinu til að þynna súpuna í lokin ef hún verður of þykk.
Látið sjóða í 30 mín. Smátt brytjuðum lauk ásamt, rófum og gulrótum í bitum og beikoni bætt út í.
Hrært af og til í og soðið í ca. 30 mín. til viðbótar, eða þangað til baunirnar eru orðnar vel mjúkar. Færið síðan kjöt og grænmeti á fat og látið baunirnar malla nokkrar mínútur án loks. Við það þykkna þær og verða enn mýkri.
Verði ykkur að góðu!