Ísafjarðarbær: Gróandi óskar eftir styrk frá bænum

Gróandi hefur starfrækt grænmetisgarða á Ísafirði í 6 ár og eru nú breytingar á rekstrarformi í burðarliðnum. Til þessa
hafa félagsmenn greitt árgjald fyrir aðgang að görðunum og annarri þjónustu en nú stendur til að opna starfsemina öllum bæjarbúum og stórauka fræðslustarf Gróanda. Tekið verður upp bakhjarlakerfi til að standa straum af kostnaði. Með þessu móti geta tekjulitlir einstaklingar frekar tekið þátt og uppskorið hollan mat fyrir sig og sína segir í kynningarefni frá Gróanda.

Félagið hyggst standa fyrir þriggja ára þróunarverkefni þar sem umhverfismál verða tekin á jákvæðan hátt inn í kennsluna á öllum skólastigum á Ísafirði. Sólborg, Eyrarskjól, Tangi og Grunnskóli Ísafjarðar hafa staðfest að þau hafa áhuga á þátttöku í verkefninu.

Starfið verður tvíþætt, annars vegar þróun kennslu, kennsluefnis og móttöku námshópa. Hins vegar almennt starf Gróanda þar sem ræktað er grænmeti fyrir bæjarbúa. Þar verður aðstoð við þátttöku þeirra í ræktuninni, fræðslustarf, aðstoð við uppskeru og viðburðahald.

Óskað er eftir því að Ísafjarðarbær komi til móts við Gróanda með því að styrkja um 1,5 milljón árlega næstu þrjú
árin.
Fjármögnun yrði skipt í þrennt:
• Styrkur frá Ísafjarðarbæ1.500.000 kr
• Styrkir varðandi þróun sjálfbærnikennslu amk. 1.500.000 kr
• Bakhjarlar Gróanda amk. 1.500.000 kr

„Fólkið sem stendur að Gróanda hefur frá byrjun staðið að aðgerðum í þágu umhverfisins, samfélagsins og bættrar heilsu fólks. Gróandi vinnur því í hvívetna að aðkallandi málefnum á þeim tímum sem við lifum þar sem leiðarstef flestra ættu að snúast um aukna umhverfisvernd.


Gróandi var upprunalega stofnaður sem svar við hefðbundnum aðferðum við matarframleiðslu og matarsóun, sem eru stærsta umhverfisógnin. Með Gróanda var hægt að vinna beint að rót vandans og sýna fram á að hægt er að framleiða mat án þeirra slæmu umhverfisáhrifa sem matarframleiðsla veldur og fjarlægja matarsóunarslóðann.“

Bæjarráðið vísaði málinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2023, og jafnframt til fræðslunefndar og umhverfis- og framkvæmdanefndar til umsagnar.

DEILA