Blálanga

Heimkynni blálöngu í Norður-Atlantshafi eru hin dýpri svæði landgrunnsins frá Norður-Noregi og við Svalbarða suður í Skagerak, í norðanverðum Norðursjó, fyrir norðan og vestan Bretlandseyjar suður í Biskajaflóa og til Spánar og Portúgals suður til Marokkó og inn í Miðjarðarhaf. Einnig er hún við Færeyjar og Ísland.

Við Ísland er blálanga allt í kring um landið en hún er þó mun algengari á svæðinu frá Suðausturlandi vestur og norður til Víkurálssvæðisins en undan Norður-, og Austurlandi.

Blálanga er botnfiskur sem veiðst hefur á 130-1500 m dýpi og helst yfir mjúkum botni. Hún er sjaldan á minna dýpi en 200 m og mest er um hana á 300-800 m dýpi.

Blálanga getur orðið um 155 cm löng.

Fæða er einkum ýmsir fiskar eins og karfi, bláriddari, keila, laxsíldir ofl. en auk þess ýmis konar krabbadýr, slöngustjörnur og fleiri hryggleysingjar.

DEILA