Á æfingu áhafnarinnar á TF-GRO á dögunum var flogið vestur að Straumnesfjalli. Þar var svokallaður AIS sendir, sem sendir stjórnstöð Landhelgisgæslunnar mikilvægar upplýsingar um staðsetningu skipa í Ísafjarðardjúpi og út af Vestfjörðum, orðinn óvirkur vegna straumleysis.
Áhöfnin á TF-GRO fékk þær upplýsingar frá tæknimönnum Neyðarlínunnar að líklegasta skýringin væri sú að rafstöð á fjallinu væri orðin olíulaus og mikilvægt að koma henni aftur í gang. Þyrlunni var lent á fjallinu rétt við endurvarpann og fór hluti áhafnarinnar að stöðinni til að kanna ástand hennar.
Olíu var dælt af tunnum yfir á olíutank rafstöðvarinnar og skömmu síðar fengust þær upplýsingar að sendirinn væri kominn aftur í samt lag.
Áhöfnin tók þá aftur á loft og hélt æfingunni áfram.
Hrannar Sigurðsson, spilmaður og flugvirki, dælir olíu af tunnum yfir á rafstöðina.
AIS sendirinn á Straumnesfjalli.
TF-GRO á Straumnesfjalli í morgun.