Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti á fundi sínum á þriðjudaginn að hefja óformlegar viðræður við Reykhólahrepp um sameiningu sveitarfélaganna. Í desember gerði sveitarstjórn Reykhólahrepps sams konar samþykkt.
Strandabyggð hafði upphaflega kannað áhuga á sameiningu sveitarfélaganna þriggja í Strandasýslu, Strandabyggðar, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps við Dalabyggð og Húnaþing vestra. Ekki reyndist áhugi fyrir því í Kaldrananeshreppi né í Árneshreppi.
Í Dalabyggð var fremur áhugi á viðræðum við Húnaþings vestra annars vegar og sveitarstjórnum Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar hins vegar. Húnaþing vestra hafði ekki áhuga á viðræðum við Strandabyggð a.m.k. að svo stöddu.
Sveitarstjórn Strandabyggðar leggur til að viðræðurnar við Reykhólahrepp hefjist hið fyrsta.