Hvatningarátakinu Játak hefur verið ýtt úr vör.
Markmiðið að auka fjölbreytni í framboði til sveitarstjórnarkosninga í vor og framvegis. Kynningarefni er gefið út og birt með áberandi hætti jafnt á íslensku, ensku og pólsku. Verkefnið er hluti af byggðaáætlun stjórnvalda.
Öll framboð til sveitarstjórna verða hvött til að huga að fjölbreytni, standa vörð um jafnan rétt allra kynja og stilla upp listum sem spanna vel fjölbreytt litróf mannlífsins.
Vonast er til að átakið skili sér í því fleiri og fjölbreyttari hópur fólks af öllum kynjum, af ólíkum uppruna og með ólíkan bakgrunni gefi kost á sér til þátttöku í sveitarstjórnum. Mikilvægt er að sveitarstjórnir endurspegli íbúaflóruna eins og kostur er en þannig má stuðla að fjölbreyttum sjónarmiðum við að þróa og efla þjónustu og rekstur sveitarfélaga.
Játak er framtak forsætisráðuneytisins og Jafnréttisstofu í samstarfi við Kvenréttindafélag Íslands, Fjölmenningarsetur, Samband íslenskra sveitarfélaga og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Kynningarefni er unnið af auglýsingastofunni Peel.
Forsætisráðuneytið fer með ábyrgð á aðgerðinni sem er fjármögnuð af byggðaáætlun á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Kynningarmyndband – Valið er einfalt