Merkir Íslendingar – Skarphéðinn Ólafsson

Skarphéðinn Ólafsson (1946 – 2017).

Skarphéðinn Ólafsson fæddist á Patreksfirði þann 10. október 1946.
Hann lést á Sjúkrahúsinu á Ísafirði þann 13. janúar 2017.


Foreldrar hans voru Ólafur Kr. Þórðarson kennari, f. 1918, d. 2010, og Helga Vigfúsdóttir húsmóðir, f. 1923, d. 2009.

Systkini Skarphéðins eru; Kolbrún Ólafsdóttir, f. 1944, og Þórður G. Ólafsson, f. 1952.

Skarphéðinn kvæntist þann 14. júlí 1974 Sigríði Margréti Skarphéðinsdóttur frá Þingeyri, fædd. 5. maí 1948, dáin 11. júní  2019.  Foreldrar Sigríðar voru Skarphéðinn Njálsson vélstjóri, f. 1916, d. 2007, og Guðrún Markúsdóttir húsmóðir, f. 1920, d. 2014.

Fóstursonur Skarphéðins frá 1974 var Skarphéðinn Rúnar Grétarsson, sonur Sigríðar, f. 14. febrúar 1966, d. 2005. Hans sonur er Konráð Ari, f. 26. desember 1985, fóstursonur Skarphéðins og Sigríðar.


Dóttir Skarphéðins er Elín Kristín, f. 7. maí 1968. Móðir Elínar var Sigrún Bernótusdóttir, f. 1950, d. 1980.

Skarphéðinn ólst upp í Hrísnesi á Barðaströnd til 14 ára aldurs. Þá fluttust foreldrar hans til Reykjavíkur með stuttri viðkomu á Patreksfirði. Hann stundaði nám við Héraðsskólann í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og varð síðan búfræðingur frá Hvanneyri vorið 1964, aðeins 18 ára gamall.

Næstu árin stundaði hann mest kennslu barna við Barnaskólann í Reykjanesi og ýmsa verkamannavinnu. Hann fór síðan í Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni vorið 1972. Skarphéðinn gerðist eftir þetta kennari og síðar skólastjóri við Héraðsskólann í Reykjanesi til 1989. Hann var síðan skólastjóri á Reykhólum, Barðastrandarsýslu, í nokkur ár og síðast við skólastjórn á Flateyri við Önundarfjörð fram til vorsins 2012.

Skarphéðinn kenndi líka stuttan tíma í Reykjavík og á Ísafirði. Á sumrin vann hann mest við smíðar, ýmist hjá verktökum eða á eigin vegum.

Útför Skarphéðins fór fram frá Þingeyrarkirkju þann 28. janúar 2017.

Reykjanes við Ísafjarðardjúp. Mynd: Mats Wibe Lund.

DEILA