Jón Eyþór Guðmundsson fæddist á Patreksfirði 5. janúar 1915. Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson smiður, f. 1872, d. 1937, og Valgerður Kristín Jónsdóttir húsmóðir, f. 1876, d. 1968.
Jón var frumkvöðull brúðuleikhúslistar hér á landi, lagði stund á nám í myndlist, fyrst á Íslandi, en árið 1939 var Jóni veittur námsstyrkur Dansk-íslenska félagsins og var hann við myndlistarnám í Kaupmannahöfn í tvö ár.
Eftir að Jón sneri heim frá námi starfaði hann sem myndlistarkennari, fyrst við Flensborgarskóla, Miðbæjarskólann og loks við Barnaskóla Austurbæjar.
Jón kynntist brúðuleikhúslist, þegar hann var við nám í Danmörku og ásetti sér að kynna löndum sínum þessa listgrein. Skömmu eftir að hann sneri aftur til landsins stofnaði hann Íslenska brúðuleikhúsið. Um árabil ferðaðist hann um landið með brúðuleikhús sitt. Síðar kom Jón á laggirnar brúðuleikhúsbíl, sem hann ferðaðist einnig með vítt og breitt.
Jón var um tíma forseti UNIMA, alþjóðlegra samtaka brúðuleikhúsgerðarmanna.
Jón hélt fjölmargar sýningar bæði á brúðum sínum, höggmyndum og málverkum. Jón sótti viðfangsefni listar sinnar til íslenskra þjóðsagna og í líf íslenskrar alþýðu.
Jón var kvæntur Valgerði M. Eyjólfsdóttur, f. 6.10. 1917, d. 9.3. 2000, og eignuðust þau fjögur börn.
Jón lést 28. maí 2004.
Morgunblaðið.
Skráð af Menningar-Bakki