Lokatölur liggja fyrir um laxveiði síðasta sumars. Í Ísafjarðardjúpi eru þrjár laxveiðiár, Laugardalsá og Langadalsá sem deilir ós með Hvannadalsá. Samkvæmt tölum Landssambands veiðifélaga veiddust 110 laxar í hvorri á um sig eða samtals 220 laxar. Er það svipað og sumarið 2020, en þá veiddust 111 laxar í Laugardalsá og 107 laxar í hinum tveimur.
Hafrannsóknarstofnun hefur takmarkað mögulegt laxeldi í Ísafjarðardjúpi til þess að vernda laxastofnana í þessum ám. Burðarþolsmat fyrir Djúpið heimilar 30.000 tonna laxeldi í sjókvíum en Hafrannsóknarstofnun bannaði kvíaeldi innan línu frá Ögurhólmum yfir í Æðey í því skyni að vernda laxastofnana í ánum þremur. Almenna reglan hefur verið að kvíar séu ekki nær árósum en 5 km en í þessu tilviku ákvað Hafrannsóknarstofnun að kvíar skyldu vera a.m.k. 25 km frá ósunum. Stofnuninni reiknast til að einungis sé hægt að ala 12.000 tonn í kvíum utan línunnar.
18 milljörðum fórnað árlega
Útflutningsverðmæti laxeldis í Djúpinu minnkar úr 30 milljörðum króna í 12 milljarða króna árlega vegna þessara sérstöku varúðarráðstafana Hafrannsóknarstofnunar. Sé þessu framleiðslutapi deilt niður á veidda laxa fæst að hver veiddur lax samkvæmt tölum Landssambands veiðifélag kostar þjóðarbúið um 27,5 m.kr. í tapaðri framleiðslu.
Fyrir liggja umsóknir frá laxeldisfyrirtækjum um eldi á næri 30 þúsundum tonna á ári og væri unnt að verða við þeim öllum ef úthlutað væri samkvæmt burðarþolsmati.
Á móti þessari fórn kemur ávinningurinn af aukinni vernd stofnanna og svo þau verðmæti sem laxveiðin skapar. Engar upplýsingar fást um tekjur af sölu veiðileyfa en miðað við lauslegar upplýsingar um verð fyrir stöng á dag má ætla að þær geti hafa verið um 15 milljónir króna síðastliðið sumar. Það eru óverulegar tekjur upp í framleiðslutapið.
Verndargildi laxastofnanna í Djúpinu er samkvæmt mati Hafrannsóknarstofnunar því mjög hátt eða sem svarar nærri 4 kg af gulli fyrir hvert kg af laxi miðað við heimsmarkaðsverð á gulli.
-k