Ísafjarðarbær: vinnsluskylda á byggðakvóta

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti sérreglur sínar um úthlutun byggðakvóta innan sveitarfélagsins á fundi sínum í fyrradag. Byggðakvóta er úthlutað til einstakra byggðarlaga innan sveitarfélagsins Hnífsalur, Ísafjörður, Suðureyri, Þingeyri og Flateyri.

Skip með lögheimili sitt skráð í byggðarlaginu og frístundabátar koma til greina. Frístundabátarnir fá 1 tonn hver, 40% af því sem þá stendur eftir er skipt jafnt milli útgerðanna sem til greina koma og því sem eftir er er skipt hlutfallslega í samræmi við landaðan afla hvers báts.

Meginreglan er að fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga. Ísafjarðarbær getur þó heimilað að aflanum sé landað innan sveitarfélags með áritun á umsókn viðkomandi um byggðakvóta.

Heimilt er að samþykkja löndun aflans innan sveitarfélagsins, en ekki aðeins byggðarlagsins, ef aðstæður kalla á svo sem þegar vinnsla á hverjum stað er ekki nægjanlega afkastamikil fyrir allan landaðan afla. Mikilvægt er þó að afla verði landað innan byggðarlaga ef möguleiki er á.

DEILA