Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að foreldrum barna 5-11 ára verði boðið að láta bólusetja börn sín gegn Covid-19.
Bólusetning er alltaf val. Þau sem fara með forsjá barns og deila með því lögheimili þurfa að taka afstöðu til bólusetningar barns á skráningarsíðunni skraning.covid.is. Þar er hægt að; skrá barn sitt í bólusetningu, skrá aðra aðila sem heimilt er að fylgja barninu í bólusetningu eða hafna/bíða með bólusetningu.
Börnum í 1.–6. bekk grunnskóla í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða verður boðin bólusetning í þessari viku. Bólusetningin fer fram á heilsugæslustöðvunum á Ísafirði, Patreksfirði og Þingeyri. Á Patreksfirði verður efsta bekk leikskóla einnig boðið með, en bólusetning þess árgangs á norðursvæðinu bíður fyrsta kastið. Foreldrar eða forráðamenn munu þurfa að sækja kóða og fylgja börnum sínum í bólusetninguna.
Unnið er að undirbúningi í góðu samstarfi við skólastjórnendur og systurstofnanir um land allt. Nánari upplýsingar um allt þetta verða gefnar síðar og geta breyst eftir því sem undirbúningi vindur fram segir í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.