Yfirmaður Innheimtustofnunar á Ísafirði sendur í tímabundið leyfi

Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga hefur sagt af sér og ný verið skipuð. Ný stjórn sendi tvo stjórnendur stofnunarinnar í tímabundið leyfi til þess „að ný stjórn geti farið yfir stöðuna og Ríkisendurskoðun geti lokið úttekt á verkefnum og starfsemi Innheimtustofnunar“ segir í fréttatilkynningu frá stofnuninni. Stjórnendurnir sem um er að ræða eru forstjórinn og forstöðumaður útibúsins á Ísafirði.

Málið tengist því að Ríkisendurskoðun hóf úttekt á verkefnum Innheimtustofnunar sveitarfélaga í september sl. að ósk samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Það var gert vegna fyrirhugaðrar tilfærslu verkefna Innheimtustofnunar til ríkisins en viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í janúar fyrr á þessu ári af fulltrúum ríkisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Úttektinni er ætlað að greina núverandi skipulag, rekstur og kostnað við verkefni Innheimtustofnunar og hins vegar að greina með hvaða hætti verkefnum stofnunarinnar verði best komið fyrir hjá ríkinu.

Ríkisendurskoðun upplýsti ráðuneytið í byrjun desember m.a. um að svör Innheimtustofnunar sveitarfélaga við úttektarspurningum væru óviðunandi.

Eftir því sem næst verður komist mun hafa komið upp í úttekt Ríkisendurskoðunar að stjórnendurnir hafi ráðstafað innheimtuverkefnum m.a. til fyrirtækis í eigu forstöðumanns útibúsins á Ísafirði. Er það litið alvarlegum augum og verður rannsakað til fulls.

DEILA