Mikill verðmunur var á jólamat í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem gerð var 15. desember sl.
Bónus var oftast með lægsta verðið í könnuninni, í 100 tilfellum af 154, Fjarðarkaup næst oftast, í 19 tilfellum og Krónan í 18.
Hafa ber í huga að mismargar vörur voru til í hverri verslun. Í Fjarðarkaup fengust flestar vörur, 149 af 154 en í Kjörbúðinni fengust fæstar vörur, 99. Til samanburðar fengust 123 vörur í Bónus, 136 í Hagkaup og 121 vara í Iceland.
Hagkaup var oftast með hæsta verðið í könnuninni, á 56 vörum en Iceland næst oftast, á 41 vöru. Sé horft á meðalverð, var Iceland hins vegar með hæsta meðalverðið í könnuninni. Þar á eftir er Kjörbúðin, með næst hæsta meðalverðið og þriðja hæsta meðalverðið var að finna í Hagkaupum. Þrátt fyrir að Hagkaup hafi oftast verið með hæsta verðið, er meðalverð hjá Iceland í könnuninni hærra en hjá Hagkaup.
Munur á hæsta og lægsta kílóverði af úrbeinuðum birkireyktum hangikjötsframparti frá SS var 51% eða 1.520 kr. Hæst var verðið í Nettó, 4.499 kr. en lægst í Bónus, 2.979 kr. Verðmunurinn á úrbeinuðu birkireyktu hangikjötslæri frá sama framleiðanda var enn meiri, 45% eða 1.795 kr. Lægst var verðið í Bónus, 3.995 kr./kg. en hæst hjá Heimkaup, 5.790 kr./kg. Þá var 57% eða 401 kr. verðmunur á Ora jólasíld. Hæst var verðið var í Iceland, 1.099 kr. en lægst í Fjarðarkaupum, 698 kr.
Hamborgarhryggur hefur árum saman verið vinsælasti jólamatur Íslendinga. Mikill munur var á hæsta og lægsta kílóverði á hamborgarhrygg óháð vörumerki og gerð, 42% eða 560 kr. Lægsta verðið var í Nettó og Kjörbúðinni, 1.338 kr. en afsláttur var af vörunni í báðum verslunum. Hæsta verðið var í Fjarðarkaupum, 1.898 kr./kg. Einnig var mikill munur á kílóverði af KEA hamborgarhrygg m. beini, 39% eða 717 kr. Hæst var verðið í Fjarðarkaupum 2.576 kr./kg en lægst í Bónus, 1.859 kr./kg. Ef tveggja kílóa hryggur er keyptur gerir það 1.434 kr. verðmun.
.