Verkefnið “Hafsjór af hugmyndum” sem Sjávarútvegsklasi Vestfjarða stendur að hófst vorið 2020 en þar gátu háskólanemar á framhaldsstigi sótt um styrk til að vinna að lokaverkefnum sínum. Á haustmánuðum lauk mjög áhugaverðu verkefni í kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri og afraksturinn er bæklinguinn „Hvernig getum við mætt íbúum af erlendum uppruna? sem eru með börn í skóla.
Helga Björt Möller, M.Ed. vann verkefnið ”Reynsla erlendra foreldra sem starfa í sjávarútvegi á Íslandi af grunnskólagöngu barna sinna” en tekin voru viðtöl við foreldra sem starfa á vinnustöðum með hátt hlutfall starfsmanna af erlendum uppruna til að ræða upplifun þeirra. Til að fá góðan þverskurð voru þáttakendur frá fjórum löndum í þremur heimsálfum og höfðu búið að meðaltali í 12. ár á Íslandi.
Niðurstöðurnar voru greindar í 5 þemu:
Það var almenn ánægja með uppeldisaðstæður barna á Íslandi en þar kom fram að foreldrar kunnu að meta afslappað skólastarf, stutta skóladaga, frelsi barnanna, verklega kennslu og flestir voru sáttir við lítið heimanám. Í einu viðtali kom fram að þrátt fyrir frjálsræðið virðast börnin læra og fara í framhaldsskóla og háskóla eins og í öðrum löndum.
Hinsvegar hafa foreldrar áhyggjur af stöðu barnanna hvað varðar íslenskuna en þar mætti gera betur. Í viðtölunum kom fram að félagsleg staða barnanna væri almennt góð og þau tækju virkan þátt í tómstundum.
Almennt voru foreldrar ánægðir með upplýsingaflæðið frá skólunum og túlkaþjónusta var yfirleitt í boði þegar þörf var á.
Í fjölmenningarlegum samfélögum er mikilvægt að skólastarfið sé fjölmenningarlegt en það var í fæstum tilfellum. Hinsvegar þar sem fjölmenningarlegt skólastarf var stundað voru foreldrar mun ánægðari. Samskiptin við starfsfólk skólans voru misjöfn en það kom fram að erlent starfsfólk skólanna reyndist foreldrum og börnum oft mjög hálplegt.
Staða foreldranna var ólík en nokkrir nefndu aðstoð frá Íslendingum við að fóta sig sem var ómetanleg aðstoð. Íslenskan er erfið og fæstir foreldranna sögðust vera í samskiptum við íslenska vini eða kunningja en væru í meiri tengslum við fólk af sama uppruna sem byggi á Íslandi. Flestir sáu fyrir sér að búa á Íslandi í farmtíðinni og vonuðust til að börnin færu í framhaldsnám.
Niðurstöðurnar voru greindar og stuðst við fyrri rannsóknir og fræðigreinar til samanburðar og afrakstur verkefnisins er handbók fyrir sveitarfélög og vinnustaði með yfirskriftina ”Hvernig getum við mætt íbúum af erlendum uppruna?” Handbókinni er skipt í tvo hluta eða ”hugmyndir fyrir sveitarfélög og skóla” og ”hugmyndir fyrir vinnustaði”. Niðurstöðurnar nýtast öllum fagaðilum og fyrirtækjum og gefa lesandanum tækifæri til að spegla sig í þeim aðstæðum sem viðmælendurnir nefna.
Háskólastyrkurinn gerði það að verkum að Helga Björt gat farið á milli þorpa og greitt fyrir ferðir og túlkaþjónustu þar sem þörf var á því og fyrir vikið fengið mjög dýrmætar upplýsingar til að efla enn frekar okkar fjölmenningarlega samfélag.
Handbókin og ritgerðin er öllum aðgengileg og öllum velkomið að nýta niðurstöðurnar.
Guðrún Anna Finnbogadóttir
Handbókin er aðgengileg hér: Pink and Orange Vivid Bold Company Handbook Training Manual Booklet (canva.com)
Lokaverkefnið er aðgengilegt hér: