Enn hefur ekki verið höfðað mál á hendur Reykhólahreppi fyrir Héraðsdómi Vesturlands vegna uppsagnar Tryggva Harðarsonar, fyrrverandi sveitarstjóra eins boðað hafði verið.
Sveitarstjórn sagði Tryggva upp i apríl 2020 og greiddi honum þriggja mánaða laun. Tryggvi gerði hins vegar kröfu um að fá greidd laun út kjörtímabilið eða til júní 2022. Ekki varð orðið við því og boðaði þá Tryggvi að mál yrði höfðað á hendur Reykhólahreppi.
Staðan er sú að sögn Ingibjargar Erlingsdóttur, sveitarstjóra að málið er í biðstöðu og að beðið er úrslita í málaferlum Gunnlaugs Júlíussonar fyrrverandi sveitarstjóra í Borgarbyggð við sveitarfélagið.
Gunnlaugi var sagt upp í nóvember 2019. Hann stefndi sveitarfélaginu fyrir dóm og krafðist launa út kjörtímabilið auk miskabóta. Borgarbyggð vann málið í sumar fyrir héraðsdómi. Gunnlaugur áfrýjaði til Landsréttar þar sem málið bíður fyrirtöku.