Hér verður kannski aðeins minna um hefðir en meira af sögum.
Að sjálfsögðu ber samt fyrst að minnast á skötuna sem við Vestfirðingar að sjálfsögðu státum af að hafa komið á sem hefð nánast um allt land.
Vestfirðir og Strandir eins og við þekkjum erru ávallt með hugann við veðrið og komandi tíð. Sú hjátrú að ef dagarnir milli jóla og nýárs eru góðir þá sé von á góðu vori og sumri.
Eins og öllum sjávarplássum þóttu jólatúrarnir eðlilegasti hlutur í heimi en venja var að fara út á hádegi á Jóladag. Núna hefur þetta nánast alveg lagst af.
Á Ströndum var lengi vel sú trú að sá draumur sem þig dreymir á þrettándanótt sé fyrirboði um komandi ár. Sama hjátrú finnst í Þýskalandi nema þar á hún við um drauma á Jólanótt.
Langar síðan að láta fylgja með sögu sem kona frá Flateyri sagði mér eitt sinn, rétt fyrir jól og allir bátar úti gerði aftakaveður. Eðli máli samkvæmt voru konurnar verulega áhyggjufullar en þessi kona sem var á barnsaldri þarna man ekki annað en að konurnar ræddu einungis sín á milli rjómaskort sem vofði yfir jólunum. Eflaust hefur verið auðveldara að hafa áhyggjur af rjómaskorti en eiginmönnum og sonum á sjó.
Það er tenging milli þessarar sögu og eftirrétts sem framreiddur er á mörgum heimilum á Flateyri enn þann dag í dag enda heilmikill rjómi notaður í hann. Uppskriftin næsta föstudag verður einmitt þessi eftirréttur sem í mínu daglega tali er aldrei kallaður neitt annað en Flateyrareftirrétturinn.
Þó við í dag tengjum jólin mikið við tónlist er það ekkert sérstaklega gömul hefð. Læt fylgja hér með til gamans elsta íslenska jólatréskvæði sem fundist hefur og er eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld og Steingrím Thorsteinsson. Kvæði Guðmundar heitir “Við jólatréð“ og er sungið undir laginu Gamla Nóa. Fyrst á barnasamkomu Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík 7. janúar 1898.
Ljósin skína,ljósin skína
ljómar grantréð hátt!
Ilm við finnum anga
epli á greinum hanga.
Syngjum, dönsum, syngjum,dönsum
syngjum fram á nátt.
Tengdum höndum, tengdum höndum
tréð við göngum kring.
Nú er gleði og gaman
gott að vera saman.
Kringum ljósin, kringum ljósin
kát við sláum hring.
Halla Lúthersdóttir